150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum svörin og er ánægjulegt að heyra að Hallormsstaðaskóli er á ratsjánni og sama má svo sem segja um orð ráðherra varðandi Verkmenntaskólann á Austurlandi, að fylgja því kannski svolítið eftir.

Mig langar síðan að koma að reiknilíkani símenntunarmiðstöðvanna. Ég held að þar flokkist undir Austurbrú fyrir austan sem hefur lagt fram mjög ítarleg gögn er varða skiptingu fjár í gegnum árin, en einhvern veginn hefur það heldur ekki skilað sér, eins og ég nefndi áðan. Varðandi háskólamenntun og annað slíkt hafa þau verið undir í fjármagni og öðru slíku. Ég spyr því aðeins út í það hvernig það er og tel að við þurfum að standa vel við þetta svæði vegna þess að þetta er afskaplega jákvætt módel og hefur skilað mjög miklu.

Síðan langar mig að spyrja út í fjármögnun til MAk á Akureyri. Þar er leikhúsið, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og söfnin og annað slíkt, söfnin eru reyndar ekki undir MAk, en ég veit að það liggur inni bréf frá þingmönnum Norðausturkjördæmis til ráðherra varðandi Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Í gegnum tíðina hafa þessir aðilar, hjá MAk sem fór einmitt í þetta, reynt að búa til heildstætt batterí til að reyna að nýta fjármuni betur fyrir leikhúsið og fyrir Sinfóníuhljómsveitina. Hvernig er staðan á því? Gerður var samningur í fyrra eða hittiðfyrra, minnir mig, þar sem vissulega var aukið fjármagn. En það þarf að gera betur ef Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á að geta lifað með reisn. Mig langar að spyrja um það.