150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf, sérstaklega í seinni tíð, haft svolitlar áhyggjur af fjölmiðlun, hvert hún sé að fara á þessari annars ágætu öld sem við lifum. Það er með þann málaflokk hér á Alþingi eins og marga aðra að við bregðumst við þegar samfélagið er í raun og veru búið að ræða eitthvert vandamál og þá eru komin ný vandamál þegar við loksins byrjum að ræða það. Til dæmis talaði hæstv. ráðherra um að leggja fram frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla, málefni sem mér finnst mjög mikilvægt að vinna að. Ég á hins vegar í smá vandræðum með það form stuðnings sem er farið út í og ekki síður upphæðirnar sem eru ætlaðar í hann vegna þess að ég óttast að leiðin sem er farin, sú sem hefur verið kynnt hingað til, sé svolítið sniðin að því hvernig fjölmiðlar hafa virkað hingað til, hvort sem það eru netmiðlar, prentmiðlar eða hvers konar miðlar. Skilyrðin eru svona og hinsegin en þau bera þess merki að vera hugsuð út frá einhverri fyrirframákveðinni hugmynd um það hvað fjölmiðill sé sem hafi rétt á stuðningnum. Þótt markmiðið sé jákvætt og gott og mikilvægt óttast ég svolítið að stuðningurinn sé í fyrsta lagi ekki nógu vel fjármagnaður en ég tel það líka vera að einhverju leyti afleiðingu af því að einblínt er á það sem þegar er til.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort það standi til að leggja með einhverjum hætti fjármagn í nýsköpun í fjölmiðlun eða til að rannsaka hvernig sé hægt að styðja við nýjar hugmyndir og nýjar leiðir í fjölmiðlun til þess að efla starfsemi einkarekinna fjölmiðla. Ég spyr, þótt tíminn sé enginn til þess að ræða þetta, vegna þess að það steðjar ógn að hefðbundinni fjölmiðlun sem kemur sér í lagi frá samfélagsmiðlum, þar sem efninu er svolítið matað út frá einhverjum formúlum (Forseti hringir.) sem tölvur búa til. Ég hef ekki tíma til að ræða þetta betur, virðulegi forseti, en ég óska eftir viðbrögðum hæstv. ráðherra.