150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég býst við að hæstv. ráðherra geti giskað á hvað ég ætli að spyrja um. (Gripið fram í.) Það eru stafrænar smiðjur. Það er ýmislegt annað í þessum málaflokkum sem ég myndi glaður vilja spyrja um líka en það er stuttur tími og nefndarvinnan eftir og nægur tími þar. Smiðjunar eru sameiginlegt verkefni menntamálaráðuneytis og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og ég spurði einmitt hæstv. atvinnu-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra fyrr í dag um þetta og markmiðin eru keimlík. Hér er markmiðið að unnið verði að tillögu um framkvæmd þingsályktunar um aðgengi að stafrænum smiðjum. Í hinum málaflokknum er það að mótuð verði umgjörð um stafrænar smiðjur. Hvorugt er uppbygging á stafrænum smiðjum.

Nú er rúmt ár síðan þingsályktunin var samþykkt og þetta er alveg í réttu ferli, það kom inn í fjármálaáætlun og þetta eru fyrstu fjárlögin í rauninni í þessum nýja takti þannig að ég var að vonast til þess að núna kæmu fjármunirnir í kjölfarið á þingsályktunartillögunni. Þar sem hvert verkefni fyrir sig er ekki kostnaðar- og ábatagreint sé ég ekki hvað liggur á bak við. Er þetta bara skriffinnska sem er í gangi? Í hversu langan tíma? Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir þremur árum í ýmiss konar undirbúning og svoleiðis. Ég veit ekkert hvað það kostar eða neitt því um líkt. Þegar allt kemur til alls er til umgjörð um stafrænar smiðjur. Það hafa verið byggðar þó nokkrar stafrænar smiðjur og kostnaður er þekktur. Það er eiginlega ekkert eftir svo ég sjái í rauninni nema bara að ákveða staðsetningu og passa að það sem hefur verið gert áður gerist aftur. Ég spyr einfaldlega: Hvenær byrjum við að byggja?