150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Stafrænar smiðjur eru að gera alveg frábæra hluti úti um allt land og eru eitt af því sem skólameistarar og rektorar eru stoltastir af. Þegar ég heimsæki framhaldsskólana er eiginlega alltaf byrjað eða endað í stafrænu smiðjunni. Hv. þingmaður spurði um fjármögnun. Við erum svo sannarlega að setja aukna fjármuni til framhaldsskólanna og eins og ég nefndi áðan er hjá mörgum skólum umtalsverður afgangur. Í mörgum skólum eru stafrænu smiðjurnar komnar. Það hefur sums staðar vantar rekstrarfé til að halda þeim áfram. En vegna þess hvernig við höfum verið að setja starfsnámið í forgang geri ég svolítið ráð fyrir því að skólameistarar og fleiri taki tillit til þessa og ég finn það þegar við komum í skólana að það er lögð mikil áhersla á þetta. Ég var í Verslunarskólanum í þarsíðustu viku og fór inn í stafrænu smiðjuna þar og það er mikil nýsköpun og mikill hugur í fólki í tengslum við þetta starf. Ég tel að það séu fjármunir nú þegar til staðar til að fara í uppbygginguna. Næsta skref varðandi þingsályktunina er að fylgja því enn frekar eftir en fjármunirnir eru að mínu mati þarna og nú höfum við beint athyglinni sérstaklega að því, bæði í frumvarpinu og í áætluninni, þannig að ég tel að við séum á réttri leið.

Svo vil ég líka nefna Verksmiðjuna, samstarfsverkefni sem við fórum í með Ríkisútvarpinu og Samtökum iðnaðarins og fleirum, þar er einmitt einblínt á þessar stafrænu smiðjur og þar erum við líka að setja aukna fjármuni. Við erum að gera góða hluti hvað þetta varðar. En ég tel eins og hv. þingmaður að við getum alltaf gert betur og við þurfum að fylgjast mjög vel með framgangi þessa máls. Ég kann hv. þingmanni miklar þakkir fyrir að nefna þetta því að það er ákveðin stefnufesta í því.