150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég velti fyrir mér hvort ráðherra geti komið nánar inn á það sem hún telur ástæður þess að eftirspurn eftir námslánum í núverandi kerfi hefur minnkað, eins og hún gerði grein fyrir í ræðu sinni. Ég veit ekki hvort við eigum að líta á það sem vandamál í sjálfu sér að dregið hafi úr ásókn í námslán. Við getum sagt að það séu tvær hliðar á því máli en forvitnilegt væri að heyra vangaveltur ráðherra um það efni.

Síðan velti ég fyrir mér hvort breytingarnar á námsstuðningskerfinu sem ráðherra vinnur að geti ekki einmitt verið þess eðlis að þær leiði til meiri eftirspurnar og þá er spurning hver ramminn er til að mæta því ef um fjölgun verður að ræða. Við gerum væntanlega áfram ráð fyrir því að stór hluti af hverjum árgangi sæki í lánshæft nám. Eru þær breytingar sem gert er ráð fyrir í þeirri frumvarpsvinnu sem nú á sér stað á vegum ráðherra ekki til þess fallnar að auka eftirspurnina? Hvernig fer það síðan saman við þann ramma sem við höfum til að mæta því fjárhagslega?