150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég fullvissa hv. þingmann um að við erum svo sannarlega líka að hugsa um hjúkrunarfræðina og námið þar. Við heilbrigðisráðherra erum að vinna aðgerðaáætlun um hvernig hægt sé að bæta stöðuna þar og heilbrigðisráðherra mun ásamt mér skipa nokkra vinnuhópa til að fara yfir stöðuna og hvernig við getum bætt hana.

Ég vil líka upplýsa hv. þingmann um að við höfum eyrnamerkt sérstaka fjármuni til að mynda til Háskólans á Akureyri en það var ekki hægt að nýta þá alla vegna þess að það vantaði klínísk pláss á sjúkrahúsunum til að þjálfa hjúkrunarfræðinemana. Við heilbrigðisráðherra höfum verið að vinna að því hvernig við getum bætt samspilið á milli þessara tveggja ráðuneyta til að fjölga hjúkrunarfræðinemum og að hjúkrunarfræðingar skili sér og vilji starfa í sinni stétt. Þar þurfum við öll að koma að. Við vitum að álagið er alveg gríðarlegt. Ég veit að heilbrigðisráðherra hefur verið að vinna að því og þetta er eitt af því sem er mjög ofarlega í hennar huga og miðar fyrst og síðast að því að minnka álagið. Við þurfum að finna leiðir bæði til að gera það og að starfsaðstaða þeirra verði betri. Við heilbrigðisráðherra höfum farið yfir það hvernig hægt sé að nýta krafta okkar sameiginlega, a.m.k. varðandi fjölgun í náminu. Ég get fullvissað hv. þingmann um að þetta er mjög ofarlega á baugi vegna þess að hjúkrunarfræðingar skipta gríðarlega miklu máli í íslensku samfélagi.