150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég er alveg sammála henni vegna þess að hjúkrunarfræðingaskorturinn er bagalegur og bitnar á þeim sem síst skyldi, veiku fólki. Það er þó annað í þessu sem ég tók eftir í fréttum í gær. Þar var verið að tala um hvort fólk væri að taka námslán og það voru hryllingssögur um þau. Fólk var skelfingu lostið, sagðist ekki vilja taka námslán, héldi sig bara heima.

Það sem ég velti fyrir mér í því samhengi er hvort þeir sem taka námslán og fara síðan út á vinnumarkaðinn séu að sligast út af námslánunum vegna þess að launin sem þeir fá eru ekki nógu há. Auðvitað er samspil milli launa og endurgreiðslu námslána. Þeir sem velja þetta langa og krefjandi nám segja að launin séu síðan ekki í samræmi við það þegar þeir útskrifast. Þar af leiðandi forðast fólk að binda sig í námslánum. Þá er auðvitað mjög gott að það eigi að vera með þannig styrkjakerfi að 30% af láninu verði gefin eftir. Ég spyr mig samt hvort það sé ekki eitthvað meira sem við þurfum að gera til að fólk óttist ekki námslánin.

Síðan er hitt, til hvaða aðgerða er verið að grípa fyrir þá sem eru t.d. með lesblindu eða skrifblindu og flosna upp úr námi þannig að hægt sé að grípa þetta fólk, gefa því tækifæri til að komast aftur inn í kerfið og það geti farið að vinna? Ég veit t.d. að margir öryrkjar sem vilja fara í nám kvarta undan því að geta það ekki vegna þess að þeir hafi ekki efni á því. Þeir fá hvorki lán né styrki til þess.