150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:04]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að gera tilraun til að stikla á stóru í stuttu yfirliti, sem vart getur talist tæmandi, um öll þau fjölmörgu verkefni sem eru á hans hendi í ráðuneyti sveitarstjórna- og samgöngumála, á fimm mínútum. Nú les maður um áform um að ríkið leggi tugi milljarða í svokallaða borgarlínu til að greiða fyrir almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og er það í sjálfu sér góðra gjalda vert. Þeir eru þó ekki síður ofarlega í huga flestra landsmanna og ekki síst höfuðborgarbúa umferðarhnútarnir sem fyrirfinnast á leiðum að og frá höfuðborginni og ber þá hæst leiðina upp á Kjalarnes sem vörðuð er fjölmörgum innanbæjarhringtorgum.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað hafi gengið eða rekið með áætlanir um Sundabraut sem hefur verið á teikniborðinu í áraraðir ef ekki áratugi og myndi leysa mjög úr umferðarvanda á öllu svæðinu, auk þess að tryggja flóttaleiðir frá borginni, til að mynda ef upp kemur almannavarnaástand. Gengur eitthvað með undirbúning að þessu verkefni, eða hvað? Ég sé í þingmálaskrá ráðherra að áætlað er að samgönguáætlun birtist í október nk. og hlakka ég mjög til að sjá hana. Það hefur reyndar undanfarin þing verið talsverð bið á samgönguáætlun.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er von á samgönguáætlun í október eða ekki? Ég spyr líka hæstv. ráðherra: Hefur ráðuneytið eða ráðherra útfært nánar veggjöld og þá hvernig? Ég sé einnig að áætlað er að leggja fram frumvarp varðandi þetta í nóvember. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra útfæra veggjöld?