150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:14]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð. Mig langar að ræða um samgöngur, samgöngumál, stórsókn, meinta stórsókn sem lætur á sér standa og við verðum lítið vör við. Þó er ekki sanngjarnt að segja að við séum í hinu stóra stoppi heldur mjökumst við áfram hægt og rólega. Það er unnið að viðhaldsframkvæmdum og eðlilegum framkvæmdum en stórsókn heitir það ekki.

Við höfum hins vegar rætt mikið um stórsókn og það hefur verið mikil umræða um nýframkvæmdir en við höfðum strandað í umræðunni. Þörfin er gríðarleg og það þarf ekki annað en að líta til borgarinnar, til næstu nágrannabyggðar uppi á Kjalarnesi. Við ströndum á fjármögnun. Við teljum okkur ekki hafa ráð á því að fjármagna vegaframkvæmdir með óbreyttum hætti. Það er mikið hagsmunamál að bæta vegina. Það er umhverfismál og það er öryggismál. Við missum allt of marga í slysum. Það hafa verið uppi hástemmdar yfirlýsingar um útfærslur á veggjöldum, allt frá því að vegarspotta skuli selja athafnamönnum svo þeir hafi þénugt af því eða ekki.

Ég spyr hæstv. ráðherra í tilefni af því að í fjölmiðlum í gær var viðtal við starfandi formann umhverfis- og samgöngunefndar um að það sé komin upp stórpólitísk samstaða um veggjöld í hverju þessi samstaða felist. Telur hann að samráði sé lokið hér á Alþingi og það ríki um þetta sátt innan þingsins? (Forseti hringir.) Telur hæstv. ráðherra ekki þörf á því að við setjumst niður og ræðum þessi mál æsingalaust frá A til Ö?