150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:16]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni og ætla að segja: Mæl manna heilastur. Ég veit að hv. þingmaður stendur fyrir því að geta rætt mál málefnalega og æsingalaust og það get ég líka. Það er nákvæmlega það sem hefur gengið eftir í þeim viðræðum sem hv. þingmaður var að vísa til um uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu, það ber nú vel í veiði með það að að því máli koma í raun og veru, held ég að ég fari rétt með, allir flokkar sem sitja á Íslandi í bæjarstjórnum eða í borgarstjórn í Reykjavík. Hér á þinginu í fyrra var líka rætt um þessi mál og var nokkur samstaða um að menn vildu gjarnan geta farið að flýta framkvæmdum þannig að ég held að við séum á góðri leið.

Að sjálfsögðu er það ekki þannig að mál séu fullrædd, þau til að mynda koma inn í samgönguáætlun og til umræðu í þinginu. Þar gefst tækifæri til umræðu. En af því að hv. þingmaður byrjaði að tala um meinta aukningu og talaði það niður, að það væri ekkert verið að gera, þá hef ég ferðast dálítið mikið um landið í sumar og ég verð að segja alveg eins og er að ég sé mikið af framkvæmdum. Ég hef séð miklar framfarir, enda kannski ekki nema von þegar fjárveiting til samgöngumála, eins og ég fór yfir í mínu máli, hefur aukist um 53% síðan 2017. Ef við horfum á hve miklu við erum að verja til framkvæmda og viðhalds á næsta ári, um 27 eða 28 milljörðum, og horfum t.d. til tímans 2010 eða 2011 — ég veit að það er ósanngjarnt — þá voru það 5–6 milljarðar. En eigum við að segja 2017 þegar það voru um 9 eða 10 milljarðar? Aukningin er gríðarleg, hv. þingmaður. Bara viðhaldið er núna í 6 milljörðum, sama upphæð og fór bæði í viðhald og framkvæmdir á árunum 2010 og 2011. (Forseti hringir.) Það er gríðarleg aukning sem hefur orðið síðustu árin. Það er ekki meint, stórsóknin er hafin og við munum sjá enn frekari framkvæmdir á næstu árum.