150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:18]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég sagði reyndar ekki að ekkert væri að gerast en að væntingar væru um miklu meira í ljósi hástemmdra yfirlýsinga. Varðandi fjármögnun vegakerfisins greinir okkur ekkert á um að við þurfum að stórbæta vegakerfið, stórbæta innviði sem við treystum svo mikið á. Hvernig við gerum það kann að vera einhver núningur um en við skulum taka þá umræðu. Við getum horft til reynslu nágrannaþjóðanna. Norðmenn hafa fjármagnað stóran hluta af sínu vegakerfi og í vaxandi mæli með veggjöldum, þeir stýra ýmsum þáttum vegakerfisins með þeim hætti og eru komnir lengra en margir. Þeir álagsstýra líka kerfinu sínu með þeim hætti. En þeir eru líka, að ég tel, komnir algjörlega að þolmörkum. Í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum fyrir örfáum dögum komust til áhrifa pólitísk öfl sem hafa það eitt á verkefnaskránni að vinna gegn veggjöldum. Þess vegna er mjög nauðsynlegt fyrir okkur, þegar við tökum umræðuna, að spyrja okkur: Hvað erum við tilbúin að ganga langt í þessu efni? Hvaða ramma ætlum við að hafa utan um þetta? Ég vænti þess að við fáum að sjá hvort það reynist rétt að það sé þverpólitísk samstaða allra stjórnmálaflokka um þetta málefni og vonandi tekst okkur að lenda þessu með ásættanlegum hætti. En eitt er víst: Við þurfum að setja meiri peninga í vegakerfið.