150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:25]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir að spyrja um hina svokölluðu skosku leið sem hann þekkir auðvitað mjög vel. Hann var formaður starfshóps sem lagði til að sú leið yrði skoðuð til að efla innanlandsflugið. Við komum með tillögur inn í vinnuna í samgönguáætlun í fyrra og það var gleðilegt að sjá breiðan stuðning í þinginu. Við í ráðuneytinu höfum unnið að framgangi þess máls síðan, skoðað alla mögulega vankanta sem geta komið upp eða truflað okkur á þeirri vegferð, eins og hvort um eðlilegar ríkisstyrkjareglur sé að ræða. Í því skyni fór ég til Skotlands fyrir stuttu með starfsfólk með mér til að fá allar upplýsingar. Við hittum þar skoska samgönguráðherrann og erum komin í mjög góð tengsl við Skotana. Samgönguráðherrann sagði að þetta hefði verið tilraunaverkefni 2006 til tveggja ára og eftir það framlengt til fjögurra ára í hvert sinn. Hann sagði einfaldlega: Flug er dýrt og það stendur ekki undir sér á þessa staði. Það er erfitt að halda úti flugi. Án þessarar leiðar yrði ekkert flug og ef við stæðum núna á þeim stað, vitandi það sem við vitum en værum að velta fyrir okkur hvaða leið við ættum að fara, færum við þessa leið aftur.

Mér fannst þetta mjög sterk skilaboð frá einhverjum sem hefur þetta langa reynslu af því að reka kerfið. Þar hefur þeim tekist, m.a. með þrýstingi frá sveitarfélögunum og íbúum í þeim byggðarlögum þar sem þetta er, að fá flugfélögin til að keppast við að halda verðinu eins lágu og hægt er. Þau nýta ekki tækifærið með auknum stuðningi til að hækka verð. (Forseti hringir.) Auðvitað hækkar verð eitthvað eftir breytingum á launum og rekstrarkostnaði en þetta hefur sem sagt gengið vel. Við erum á góðri leið með að innleiða þetta en það tekur samt tíma.