150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á undanförnum mánuðum höfum við glímt við málefni Íslandspósts og fengið aðila á fund umhverfis- og samgöngunefndar og fjárlaganefndar líka til að skoða hvað er þar í gangi. Ríkisendurskoðun hefur skilað skýrslu til þingsins um þau málefni og ýmiss konar athugasemdir verið gerðar við þá skýrslu í kjölfarið. Nú er eitt af helstu verkefnum 2020 í fjárlagafrumvarpinu hvað þetta málefnasvið varðar innleiðing á nýju heildarregluverki í póstþjónustu, m.a. með gildistöku og eftirfylgni við væntanlegan þjónustusamning milli Íslandspósts og ráðuneytanna frá 1. janúar 2020.

Til að byrja með vil ég gera athugasemd við að Íslandspóstur sé sjálfgefinn. Það gæti verið mun fjölbreyttara úrval og það voru fleiri möguleikar í frumvarpinu eins og það kom fram. Mér finnst óþægilegt að sjá gert ráð fyrir því að Íslandspóstur komi til með að sinna þessu. Í öðru lagi spyr ég um upphæðirnar sem eru væntanlegar fyrir þennan þjónustusamning. Miðað við þær tölur sem við höfum fengið út af rekstri Íslandspósts virðist vera ansi mikið á reiki þar hvað kostar hvað, að verið sé að rukka fyrir einkaréttinn og alþjónustuna fram og til baka, þ.e. að samkeppnishlutinn beri ekki kostnaðarhlutdeild sína af rekstrarkostnaði og því um líku.

Þetta er spurning um ákveðna varúð hvað Íslandspóst varðar fyrir árið 2020, hvers konar varúðarskref við eigum í raun að taka áður en mjög langur og dýr þjónustusamningur verður gerður við Íslandspóst, hvað við eigum að gera áður en það skref verður tekið og (Forseti hringir.) kannski ætti að fara varlega í þann þjónustusamning til að byrja með ef ekki er búið að klára hann.