150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:37]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að spyrja um tvo mjög ólíka ferðamáta og samgöngumáta. Í ljós hefur komið að talsvert hefur verið um lokanir í almennu flugi í Reykjavík á síðustu mánuðum, t.d. fjórum sinnum núna það sem af er þessum mánuði, og víða er viðhald innanlandsflugvalla ekki nógu gott. Í samgöngukafla frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Opinbera hlutafélagið Isavia ohf. annast viðhald, framkvæmdir og þjónustu á flugvallakerfinu, flugumsjón og flugleiðsögu samkvæmt þjónustusamningi.“

Ég velti fyrir mér hvort ekki sé tímabært að endurskoða þennan þjónustusamning eða breyta fyrirkomulaginu með þeim hætti að það færist kannski yfir í hefðbundna ríkisstofnun sem sinnir þá hefðbundinni almannaþjónustu frekar en að hafa þetta hagnaðarsjónarmið, sem er krafa um, og hvort nægir fjármunir séu til að ná yfir það viðhald og þá þjónustu sem þörf er á.

Í liðnum um helstu verkefni 2020 er talað m.a. um uppbyggingu stofnstíga fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Mig langar til að spyrja, úr því að Vegagerðin hefur samkvæmt lögum skyldur til að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum og á að stuðla að því að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið, hvort nægilega tryggt fjármagn sé til Vegagerðarinnar til að sinna uppbyggingu hjólastíga, bæði á höfuðborgarsvæðinu og einnig víða um land. Þetta er eitthvað sem hefur farið vaxandi síðustu árin og er mikil þörf á að gert sé vel og hratt.