150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:39]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ágætar fyrirspurnir hv. þingmanns. Varðandi lokanirnar á Reykjavíkurflugvelli hvíslaði hv. þingmaður því að mér fyrir nokkrum dögum, ég hafði þá ekkert heyrt um þær og hef reyndar ekki fengið nein svör og mun óska eftir þeim frá Isavia og í hverju þetta hafi falist. En um innanlandsflugvellina eru það auðvitað stóru tíðindin, sem eru öllum ljós, að við höfum sett of litla fjármuni í þá í of langan tíma. Við erum þess vegna að horfa á breyttan stuðningshátt við vellina í þeim tilgangi að flug verði vonandi öruggara, tíðara, hagkvæmara og þar af leiðandi meira notað. Um leið held ég að það sé ljóst að uppbyggingaráform á þeim völlum verða að koma úr ríkissjóði. Það er ekkert ólíkt því sem við sjáum til að mynda í Noregi sem notar engu að síður krossfjármögnun í reksturinn, að þegar einhver uppbygging fer fram komi framlag til þess úr ríkissjóði, og það er kannski eitt af því sem við skoðum. Það myndi þá tengjast þjónustusamningi sem við höfum haft áform uppi um að gera til lengri tíma og sjá svolítið lengra fram á við þannig að Isavia gæti hreyft sig kannski innan árs vitandi það að þau framlög koma á næstu árum.

Hvað varðar hjólandi og gangandi er spurt: Er það tryggt að Vegagerðin hafi nægilega fjármuni til að gera allt? Auðvitað ekki. Vegagerðin getur alltaf notað meiri peninga, en leggjum mikla áherslu á þá fjármuni, bæði í viðræðum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu en líka í samgönguáætlun vegna þess að það er ekki bara innan höfuðborgarsvæðisins sem menn vilja komast hjólandi milli staða og þá ekki aðeins innan bæjarfélaga heldur einnig milli lengri kafla, eins og við höfum séð í Eyjafirði. Við höfum verið að skoða þetta á Suðurnesjunum og á Suðurlandi höfum við verið að gera slíka hluti. Ég fullyrði því að á næstu árum munum við sjá stórsókn í þeim málum.