150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir fjórar laufléttar. Kannski getur verið svolítið erfitt að svara þeim á stuttum tíma. En varðandi tengivegina, stofnbrautirnar, þá er það ein af stærri áskorunum, held ég, næstu ára hvernig við getum aukið fé til þeirra og það er það sem við erum að reyna að skoða í samgönguáætlun. Ég held að það séu um 900 milljónir sem fara til þessa málaflokks sem síðan skiptast eftir ólíkum svæðum. Við erum í dag með áform uppi um að þetta hækki í 1.250 árið 2024 og verði 1.300–1.700 milljónir á ári eftir það, tíu ár eftir það. Áskorunin er þá að geta flýtt því og fært eitthvað framar. Það getur verið erfitt að koma öllu fyrir en ég held að þetta gæti verið áhugavert. Dreifingin á hvert svæði er í samræmi við lengd malartengivega en við höfum líka verið að skoða alls konar hluti sem væri hægt að leggja á að óbreyttu. Það eru ódýrari leiðir.

Varðandi Vestfjarðaveginn eru fjárveitingar svipaðar og áður og það er fullfjármagnað. Ég veit ekki annað, ef sveitarfélagið svarar þeim athugasemdum sem hafa komið fram, en að framkvæmdaleyfi gæti verið samþykkt og auglýst og þá gæti Vegagerðin farið í útboð í haust. Ég vona það. Ég horfi til þess.

Almenningssamgöngur í fjármálaáætlun eru vanfjármagnaðar og við þurfum að horfa til þess í næstu fjármálaáætlun. Við setjum þar 600–700 milljónir og ég held að þörf verði á því að bæta það. Við erum að innleiða nýtt kerfi núna um næstu áramót og við munum strax byrja að sjá hvar við þurfum helst að bæta í og hvað það muni kosta þannig að ég held að við séum með færi þar.

Ég hef ekki mikinn tíma í hafnirnar en svo ég nefni Hornafjörð, og tek kannski Vestmannaeyjar á eftir, þá er (Forseti hringir.) gert ráð fyrir framkvæmdum við sandfangara við Einholtskletta strax á næsta ári (Forseti hringir.) og þarnæsta og síðan í framhaldi af því verður farið í endurbyggingu á Miklagarðsbryggju. Það er mjög mikilvægt að skoða. Það er líka mikilvægt að skoða meiri dýpkunarhluta (Forseti hringir.) og það tengist Landeyjahöfn sem við getum komið inn á á eftir með leyfi forseta.