150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir spurningarnar. Það er kannski stórt spurt: Hvaða snillingur bjó til vegakerfið á Íslandi? Ég fékk símtöl í sumar frá fólki sem hafði keyrt um Ísland og ég hélt kannski að ætlaði að fara að tala um eitthvað annað, t.d. kvarta yfir hvað vegakerfið væri vont, en þá sagði það: Ég hef nú keyrt um Ísland og gerði mér ekki grein fyrir hvað vegakerfið á Íslandi er gott. Menn hafa áttað sig á því — við erum með 13.000 km — hvað við erum búin að byggja upp ótrúlega flott vegakerfi á stuttum tíma í raun og veru.

Það hefur síðan gerst síðustu árin, kannski bara fimm, sex árin, hámark tíu, að umferðaraukningin er gríðarleg, aðallega vegna aukins fjölda ferðamanna sem gerir að verkum að margt hefur farið á verri veg. Á höfuðborgarsvæðinu hefur það auðvitað verið þannig, kannski vegna þess að við tókum ákvarðanir í þessum sal fyrir 150 árum og höfum viðhaldið því dálítið sterklega að hér ætluðum við að hafa helst alla þjónustu, helst hérna niðri í miðbæ. Allt sem ríkið byggir skal vera hér og allt skal fært hingað. Það er kannski hin raunverulega byggðastefna sem við höfum haft í 150 ár, þrátt fyrir allar hinar sem reyna síðan að vinna gegn þeirri stóru. Það hefur þýtt að fólki hefur fjölgað og umferð aukist.

Eitt af því sem við erum að vinna að núna í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, og ég er svo ánægður með, er heildarsýn til framtíðar. Eitt af því sem gæti komið út úr því er Sundabraut, sem ég veit að hv. þingmaður yrði glaður við að heyra. Ofanbyggðavegur þarf þá einmitt að tengjast skipulagi hvers sveitarfélags, en ég sæi reyndar ekki fyrir mér hvernig ofanbyggðavegur myndi bjarga tengingunni við Seltjarnarnes. En það er svo annað mál.