150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:07]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég segi nú eins og ég sagði við annan hv. þingmann: Menn skyldu fara varlega í að túlka það sem þeir lesa í fjölmiðlum þar til vinnu við samkomulag á höfuðborgarsvæðinu er lokið, það undirritað og kynnt. Þá getum við tekið málefnalega umræðu um staðreyndir málsins, en ekki einhver upphlaup úr einhverjum fjölmiðlum sem reyna að stela athygli á röngum forsendum.

Ég er sammála hv. þingmanni að eitthvað eitt bjargar ekki neinu. Borgarlínan ein bjargar ekki umferðarteppu eða leysir allt á svæðinu. Tvenn eða þrenn mislæg gatnamót myndu heldur ekki bjarga öllu sem þarf að leysa á höfuðborgarsvæðinu. Einn hjólastígur eða göngustígur myndi heldur ekki gera það. Það er einmitt það sem við erum að gera. Við erum að taka þetta allt saman í heild sinni, horfa á þetta í heild. Síðan þarf auðvitað hvert sveitarfélag fyrir sig í framhaldinu og á sama tíma að tryggja svolítið að þjónustan innan byggðakjarna sem fólk býr í sé öll fyrir hendi. En að fólk geti með fjölbreyttum ferðamátum, gangandi, hjólandi, með strætó eða bíl, farið ferða sinna.

Það hefur enginn talað um skattahækkanir, nema hv. þingmenn hafa verið að tala um það. Við erum fyrst og fremst að tala um breytt umferðarmódel, hugsanlega tekjumódel. Við erum að tala um að flýta framkvæmdum. Við erum að tala um að sjá hlutina fyrir okkur í stærra samhengi til lengri tíma sem lausnir fyrir alla sem búa á þessu svæði og á öllu landinu, en ekki einhverjar einstakar lausnir því að þær virka ekki. Ég er sammála hv. þingmanni um það.