150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í hagsmunagæslu okkar og ráðuneytisins gagnvart Brexit. Það segir í fjárlagafrumvarpinu að veittar verði um 30 millj. kr. af almennu útgjaldasvigrúmi til að styrkja ráðuneytið við hagsmunagæslu vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni og mig langar að beina sjónum sérstaklega að sjávarútveginum í þeim efnum. Mikilvægasti markaðurinn fyrir sjávarafurðir er einmitt í Bretlandi og hefur verið um langt skeið. Árið 2017 fóru þangað um 61.000 tonn af sjávarafurðum og vöruskipti milli Íslands og Bretlands námu um 91 milljarði það ár.

Það sem er líka áhugavert varðandi breska markaðinn er að Bretland er nokkurs konar brú yfir á aðra markaði og þar vil ég nefna sérstaklega Frakkland. Þangað var útflutningur á ferskum sjávarafurðum fyrir um 21 milljarð kr. árið 2016. Þetta eru gríðarlega háar upphæðir. Nú er alveg ljóst að það kemur til með að hafa veruleg áhrif þegar Bretar ganga úr Evrópusambandinu. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig hefur sú hagsmunagæsla gengið? Hafa fjárveitingarnar dugað? Ég sit í fjárlaganefnd og maður reynir að sjá hvar er hægt að spara og hvar er verið að eyða kannski um efni fram en í þessu tilfelli held ég að alveg ljóst sé að það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi.

Svo að ég vil fá það fram hjá ráðherra hvernig þetta hafi gengið, hver árangurinn af þeirri hagsmunagæslu sé og hvort fjárveitingar hafi dugað.