150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að gæta hagsmuna okkar við útgöngu Breta úr ESB og það hefur verið forgangsmál hjá mér frá því að ég tók við. Þegar ég kom að málum voru fjárheimildir til að opna sendiskrifstofu í Strassborg en ég taldi fjármunum betur var í hagsmunagæslu hvað varðar Brexit og sömuleiðis varðandi EES. Ég sé ekki eftir að hafa tekið þá ákvörðun. Ef við tölum um árangurinn af hagsmunagæslunni þá koma inn á næstu dögum frumvörp sem ekki voru kláruð í vor sem miða að því að ganga þannig frá málum að hvort sem þeir fara út án samnings eða ekki séu helstu hagsmunir tryggðir. En síðan eru næstu skref að fara í framhaldssamninginn og að því höfum við unnið ásamt Bretum og ekki neitt sem bendir til annars en að við eigum að geta náð góðum árangri hvað það varðar.

Ég get kannski ekki farið yfir allt það sem hefur verið gert í þessu stutta andsvari en stutta sagan er sú að það á að vera sama hvernig þeir fara út, helstu hagsmunir okkar eiga að vera ágætlega tryggðir. Hv. þingmaður vísaði hins vegar til þess, sem er alveg hárrétt hjá honum, að það geti komið okkur illa ef Bretar fara út án samnings út af viðskiptunum milli Bretlands og Frakklands og í rauninni fleiri landa, vegna þess að nú renna viðskiptin þar mjög óhindrað á milli. Það er hins vegar hlutur sem við getum ekki átt við. Við ráðum ekki hvernig Evrópusambandið og Bretland haga málum sínum. Við höfum reynt að leggja gott til málanna og lagt áherslu á að það væri mjög slæmt og mætti ekki gerast að það væru einhverjar viðskiptahindranir í Evrópu. Það er hins vegar nokkuð sem við ráðum ekki. Við stýrum ekki ágætum vinum okkar og bandamönnum, Evrópusambandinu og Bretum.