150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þar sem hann vísaði til og fór ágætlega yfir heimsókn Pence og bæði yfirlýsingar mínar og varaforsetans. Það er rétt, eins og hv. þingmaður vísaði til, að þegar kemur að Belti og braut er það nokkuð sem hefur verið í skoðun hjá okkur en við höfum hvorki samþykkt að fara í það verkefni né afþakkað það sérstaklega. Stefna okkar almennt, getum við sagt, varðandi Kína er sú að við höfum lagt áherslu á að þeir samningar sem við erum með, sem eru fjölmargir, verði virkir og að við nýtum þá. Ég hef lagt áherslu á það t.d. varðandi fríverslunarsamninginn því að þegar ég kom að borðum gátum við í rauninni ekki flutt út mikið af okkar mikilvægustu vörum. Þeir gátu flutt allt til okkar en við gátum ekki flutt til þeirra. Sem betur fer skrifaði ég undir það á Selfossi með tollamálaráðherra Kína, og það gerðist ekki af sjálfu sér, ég get fullyrt það við hv. þingmann og þingheim að mikil vinna var á bak við það, að við getum núna flutt út fiskeldisvöru, fiskimjöl og lýsi, lambakjöt og gærur og það er auðvitað mjög mikilvægt. Við erum líka með samstarf á sviði jarðvarma og ýmislegt annað sem við höfum viljað fá reynslu á hvernig nýtist. Síðan höfum við verið að ræða þessi mál í heild sinni, m.a. ræddum við þau með ráðherrum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Borgarnesi fyrir nokkrum dögum síðan. Næstu skref í utanríkisþjónustu til framtíðar eru í raun að koma með stefnu gagnvart hverju landi fyrir sig. Við höfum lagt drög að því og munum kynna þau mál fyrir utanríkisnefnd þegar þar að kemur og er verið að skoða sömuleiðis einstaka þætti. Við erum ekki komin á neinn þann stað að geta metið verkefnið Belti og braut en það verður allt (Forseti hringir.) saman kynnt fyrir þingheimi og þá sérstaklega hv. utanríkisnefnd.