150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:23]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það vekur athygli að í frumvarpinu er áfram tímabundið framlag vegna hagsmunagæslu Brexit, þ.e. 30 milljónir eins og tvö síðustu ár. Ekki er langt síðan hæstv. ráðherra talaði um tækifærin sem fælust í útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Nú hljóma þau ummæli frekar einfeldningsleg, enda sýnir skýrsla bresku ríkisstjórnarinnar að áhrifin af samningslausri útgöngu gætu orðið gríðarlega neikvæð, jafnvel skelfileg, hún haft vond efnahagsleg og félagsleg áhrif í Bretlandi en einnig á Íslandi. Þó að Ísland hafi staðið sig ágætlega að hnýta enda og gera neyðarsamning, sem er uppsegjanlegur að einhverju leyti af Bretlands hálfu — þeir geta breytt honum — bendi ég á að nú þegar eru fiskútflytjendur farnir að fara fram hjá Bretlandi til að losna við vandræði. Síðan skapar nýr samningur Norðmönnum aukin tækifæri, t.d. á ferskum sjófrystum fiski. Þeir fá þá betri tollakjör en þeir hafa fengið hingað til, þannig að það gæti svo sem ógnað samningsstöðu okkar. Ég spyr hvort ráðherra sjái enn þá þessi gríðarlegu tækifæri og hvort hann hafi áhyggjur af þessu.

Mig langar líka að spyrja hann, af því hann talaði áðan um að hann ætlaði að fara að lista upp einstök ríki sem hann vildi eiga viðskipti við, hvort ætti kannski ekki að fara að leggja meiri áherslu á samstarf við Evrópuþjóðirnar. Við fáum mikið af löggjöf okkar þaðan. Evrópuþjóðirnar standa í fararbroddi þegar kemur að aðgerðum gegn hamfarahlýnun og loftslagsaðgerðum, sem margir ráðherrar töluðu einmitt um í umræðum um stefnuræðuna. Væri ekki nær að einbeita sér að aukinni samvinnu við Evrópu í staðinn fyrir að veðja á staka lukkuriddara, eins og ráðherra hefur stundum látið í veðri vaka?