150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en ég verð að viðurkenna að ég skildi hana ekki alveg. Í fyrsta lagi var ég ekki að tala um lista yfir ríki sem ég vildi eiga viðskipti við. Ég sagði að þegar við fórum út í vinnuna við utanríkisþjónustu til framtíðar voru ein nýmælin þau að áður en sendiherra tekur við pósti kemur hann fyrir hv. utanríkismálanefnd og útlistar helstu verkefni og hefur þá líka góðan tíma til að undirbúa sig í samvinnu við hagsmunaaðila hér á landi. Næsta skref sem við ætluðum að stíga væri að við hefðum betur skilgreinda stefnu gagnvart öllum þeim helstu löndum sem við eigum samskipti við og var verið að ræða þar sérstaklega um Kína.

Hv. þingmaður vísaði í að það yrðu svo slæmar afleiðingar fyrir okkur Íslendinga ef Bretar færu út án samnings. Það eru vissulega ógnanir í því. En ef hv. þingmaður er að vísa í umfjöllun sem var í Financial Times tók viðkomandi blaðamaður ekki til greina þá vinnu sem við höfum unnið og þá samninga sem liggja fyrir. Ef hv. þingmaður hjálpar til að koma þeim málum í gegnum þingið þurfum við ekki að hafa þær áhyggjur sem lagt var upp með.

Varðandi tækifærin er það nú ekki bara ég sem hef haldið því fram. Bæði formaður og varaformaður flokks sem er jafnvel meiri ESB-flokkur en Samfylkingin, Viðreisn, töluðu um þau, bæði í viðtölum og hér í þingi. Tækifærin eru augljós að því er varðar t.d. EES-markaðinn sem við eigum náttúrlega mjög mikil viðskipti við. En það er alveg augljóst að ef við ætlum að auka útflutningsverðmæti okkar þurfum við að sinna fleiri mörkuðum en þeim, og þá erum við ekki með fullan tollaðgang þegar kemur að sjávarútvegi. Það er því augljóst að ef við setjumst niður með Bretum eru tækifæri hvað það varðar. Þegar fimmta stærsta efnahagsveldi heims ætlar að leggja aukna áherslu á fríverslun í heiminum aukast sömuleiðis tækifærin fyrir okkur og aðra, svo farið sé yfir það hérna enn og aftur. En hins vegar er ógnin okkar. Ég held að hv. þingmaður eigi að líta til þess líka að tveir eru að semja. (Forseti hringir.) Það er ekki bara Bretland heldur líka Evrópusambandið.