150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:32]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp og þann kafla í því er varðar utanríkismálin. Ég verð að játa að mér finnst ég því miður vera að endurtaka mig svolítið oft og reglulega þegar við ræðum utanríkismál í fjárlagafrumvarpi eða fjármálaáætlun. Það hlýtur að vera bæði slæmt fyrir hæstv. ráðherra og mig sjálfa. En látum það liggja á milli hluta. Fyrir það fyrsta er ég almennt þeirrar skoðunar að í fjárlagafrumvarpinu sé ekki nægjanleg aukning til utanríkismála. Bæði í fjármálaáætlun og í þessu frumvarpi eru fínar áherslur, sérstaklega áhersla á styrkingu stofnana, verkefna og viðburða sem stuðla að auknum mannréttindum, jafnrétti, þjóðarétti og mannúð á heimsvísu. Þetta eru sannarlega mjög göfug markmið þó að nokkuð óljóst sé hversu miklir fjármunir eigi að fara nákvæmlega í þessar áherslur en þær ríma vel við setu okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og greinilegan vilja í ráðuneytinu og hjá hæstv. ráðherra til að fylgja þeirri setu eftir.

Ég væri líka til í að sjá meiri fjármuni til undirbúnings formennsku í einni mikilvægustu mannréttindastofnun sem við eigum aðild að, sem er Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið, og tel að upphæðina 41,5 milljónir fyrir undirbúning á þeirri formennsku, sem dreifist á þann undirbúning ásamt öðrum verkefnum, mætti hækka.

Mig langar að ræða það sem ég ræddi við umræðu um fjárlög fyrir ári síðan en það er áframhald á verulega auknum fjármunum og mikil hlutfallsaukning á beinu framlagi Íslands innan NATO til að tryggja varnir Íslands — í öryggis- og varnarmál. Um er að ræða tæpan hálfan milljarð af auknu fé í samstarf um öryggis- og varnarmál frá síðustu fjárlögum. Það er ansi mikið þegar heildaraukning til utanríkismála fyrir árið 2020 er 930 milljónir. Aukið fé í samstarf um öryggis- og varnarmál er því meira en helmingurinn af heildaraukningunni. Við höfum deilt um hvort um eðlilega viðhaldsþörf sé að ræða á hernaðarmannvirkjum á Keflavíkurflugvelli eða eðlisbreytingu. Sjálf er ég á þeirri skoðun að um eðlisbreytingu sé að ræða og það þarf að ræða og ég hef líka óskað eftir því oft og rætt það hér.

Ég vil fá að heyra hvað utanríkisráðherra hefur um það að segja, hvort við ætlum að halda áfram á þessari braut. Svo verð ég að nefna að það er sérstaklega dapurlegt að sjá (Forseti hringir.) að framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu fyrir árið 2020 lækka um 387,5 milljónir, um 6,6%, og ein skýringin er lækkun vegna áætlaðra vergra þjóðartekna. Ráðherrann verður að útskýra betur þessa lækkun og breytta samsetningu á heildarútgjöldum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

Svo verð ég að segja, (Forseti hringir.) ég ætla að koma að öðru í seinni ræðu, um þessa dapurlegu tilfærslu á 300 millj. kr. framlögum til þróunarmála yfir í málefnasviðið öryggis- og varnarmál að það að ætla þinginu að leiðrétta þá tilfærslu (Forseti hringir.) finnst mér einfaldlega ekki alveg í lagi.