150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég byrja á öfugum enda. Hv. þingmaður getur fengið tölurnar en það er svolítið erfitt að fletta þeim öllum upp á skömmum tíma. En það er ekki kominn neinn nýr samningur við Breta. Framtíðarsamningurinn er eftir þannig að þegar menn tala um hvort tækifæri hafi aukist þá á það eftir að koma í ljós. Þetta er það sem við erum að gera núna af því Bretar mega ekki gera slíkan framtíðarsamning meðan þeir eru í Evrópusambandinu, Bretar hafa ekki viðskiptafrelsi eins og við. Þeir eru partur af viðskiptablokk og það er hún sem semur fyrir þá. Það er ein ástæðan fyrir því að þeir voru óánægðir með að vera í Evrópusambandinu, þeir höfðu ekki viðskiptafrelsi. Evrópusambandið hefur verið mjög hart á því að leyfa þeim ekki að gera samninga fyrr en þeir eru komnir út. Það hefði verið þægilegra ef það hefði verið hægt að byrja á því fyrr en út af afstöðu Evrópusambandsins er það ekki hægt.

Ég get komið upplýsingum til hv. þingmanns um mannvirkjasjóðinn og aðra þá þætti. Varðandi UNESCO-framboðið liggur sömuleiðis alveg fyrir hver heildarkostnaðurinn er, það eru 42 milljónir núna en síðan verður heildarkostnaðurinn náttúrlega mun meiri ef við náum því að vera kosin þar inn. Ég held að ég muni það rétt að ef við komumst inn sé gert ráð fyrir 422 millj. kr. í UNESCO-málið allt saman. Hvað varðar uppbyggingarsjóð EES er samið um ákveðna upphæð. Það raungerist hins vegar á milli ára eftir verkefnum. Almenna reglan er, (Forseti hringir.) ef ég man rétt, að það byrjar frekar lágt, hækkar í miðjunni en fer síðan niður. En það leggst auðvitað ekki alltaf til kostnaður. Það fer eftir verkefnum á hverju ári fyrir sig.