150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:47]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svarið um uppbyggingarsjóð. Varðandi hinar spurningarnar var það heldur loðnara. Hvað varðar UNESCO þá veit ég svo sem upphæðina en mig vantar svolítið að skilja í hvað peningurinn fer í svona framboði og síðan hvað það mun kosta á ári til næstu ára ef við náum að fá þetta sæti. Með Bretana er það rangt hjá hæstv. ráðherra því að ef það væri tilfellið að Evrópusambandið væri að banna Bretum að semja um viðskipti væri auðvitað ekki í boði að búa til þennan tímabundna samning sem hefur verið gerður og á að taka gildi nema sem snýr að … (Gripið fram í.) Já, þetta gengur ekki upp. Ég veit ekki einu sinni hvernig á að spyrja þessarar spurningar, þetta er svo fáránlegt svar hjá hæstv. ráðherra. (Utanrrh.: Mér finnst þetta fáránleg spurning.) En það er engu að síður þannig að við erum að tala um vöruviðskiptasamning, er það ekki? Hann á að taka gildi á þeim tímapunkti þegar Bretar ganga út. Það fellur einhverra hluta vegna ekki undir skilyrðin sem Evrópusambandið setur. Af hverju gátum við ekki sett þjónustuviðskipti undir það sama? Voru kannski ekki tækifæri til þess? Ég skil þetta ekki. Það er alveg ástæða til að hrósa fyrir það sem hefur verið gert en ég spyr. Hvar er restin, t.d. í þjónustuviðskiptum?