150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra svarið. Það er vel að við séum í stöðu og höfum tækifæri til að leggja áherslu á málefni okkar og sjónarmið í formennskunni og formennskuáætluninni. Eins og ég orðaði það fyrr er ekki komin reynsla á þetta en hér er alltaf undirliggjandi að við erum að ræða nýtingu fjármuna og þegar ekki er kominn lengri tími og meiri reynsla vill maður grafa eftir því hver séu hin raunverulegu verkefni. Hvar berum við niður? Hvar sér maður raunveruleg verkefni til að koma þessum sjálfbærnisjónarmiðum á framfæri? Svo er auðvitað svo margt sem tengist norðurslóðamálunum sem gæti kannski komið í veg fyrir að við náum að halda fram sjónarmiðum okkar að því leytinu til varðandi rannsóknir á hafinu og hlýnunina og það allt, loftslagsmálin. Hæstv. ráðherra fór annars ágætlega yfir þetta í ræðunni, en eru það einhver verkefni sem hæstv. ráðherra gæti komið inn á í seinna skiptið?