150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið. Já, varðandi markmiðin, þetta eru ekki nema 1,9 milljarðar, það er kannski óþarfi að byrja á að setja sér markmið um það.

Það sem mig langaði líka til að fá að ræða aðeins um við hæstv. utanríkisráðherra er það sem fjallað er um utanríkisviðskipti, eðlilega. Þar er verið að tala um Íslandsstofu og nýja stefnumótun fyrir Íslandsstofu. Það segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Stjórn Íslandsstofu hefur nú lokið gerð tillagna sem stendur til að leggja fyrir útflutnings- og markaðsráð á fundi sem er fyrirhugaður 9. september nk.“

Sá tími er liðinn þannig að væntanlega er búið að leggja þær fram. Hér er um að ræða 842 milljónir sem Íslandsstofa hefur til ráðstöfunar af markaðsgjaldi. Það er því gríðarlega mikilvægt að þeim fjármunum sé ráðstafað með mjög markvissum hætti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti frætt okkur um áherslur þar.

Einnig langar mig að spyrja sérstaklega um helstu verkefni ársins 2020. Þar er með réttu talað um að tryggja virkari þátttöku Íslands í mótun EES-löggjafar o.s.frv. Síðan er talað um að vinna að gerð fríverslunarsamninga. Ég tek eftir því að þegar verið er að fjalla um fríverslunarsamningana er sérstaklega tekið fram að það eigi að gera í samráði við hagsmunaaðila, lesist væntanlega, atvinnulífið, ég gef mér það. En þegar talað er um virkari þátttöku Íslands í mótun EES-löggjafar er ekkert minnst á hagsmunaaðila eða atvinnulíf. Ég velti því fyrir mér, þar sem EES-samningurinn er langstærsti og mikilvægasti samningurinn, af hverju þessi greinarmunur er gerður þarna á milli, hvort einhver sérstök hugsun sé þar á bak við eða hvort þetta séu einhvers konar mistök eða hugsunarleysi.