150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins að því þar hv. þingmaður hélt áfram að tala um markmið og aðgerðir þegar kemur að alþjóðastofnunum. Í rauninni eru þessi framlög eins og félagsgjöld. Það dettur t.d. ekki mjög vel inn í það umhverfi sem við erum að leggja upp með, ég veit ekki hvort við getum formað það eitthvað meira, það má vera, en alla vega liggur það þannig fyrir í því máli.

Varðandi Íslandsstofu fórum við í að breyta lögum um Íslandsstofu til að gera hana að virkari samstarfsvettvangi milli atvinnulífsins og hins opinbera. Það var mjög vel stutt af atvinnulífinu. Ég held að það sé einnar messu virði að fara yfir þær tillögur sem núna liggja fyrir, eins og hv. þingmaður vísaði til, en ég næ ekki að fara yfir það í stuttri ræðu. En ég held að mjög mikilvægt sé að þingið sé meðvitað um þá vinnu sem þar hefur farið fram, sem hefur verið í mjög náinni samvinnu annars vegar atvinnulífsins og hins vegar ráðuneytis og ráðuneytanna.

Hvað varðar fríverslunarsamningana og EES þá er einhver misskilningur hjá hv. þingmanni því að það liggur alveg fyrir að allar þær tillögur sem lagt hefur verið upp með í hagsmunagæslunni taka mið af því að vinna þétt með hagsmunaaðilum hvað það varðar. Reyndar er það svo að ef menn skoða utanríkisþjónustu til framtíðar í skýrslunni gengur það eins og rauður þráður í þeirri skýrslu að vinna þéttar með hagsmunaaðilum og sérstaklega var kallað eftir því að það færi til hagsmunaaðila. Og beðið var um sjónarmið þeirra gagnvart utanríkisþjónustunni í heild sinni og auðvitað er EES-samningurinn gríðarlega stór þáttur hvað það varðar.

En síðan er ánægjulegt frá því að segja að við höfum náð árangri þegar kemur að fríverslunarsamningunum. EFTA er búið að klára samninga við Indónesíu og Mercosur-ríkin. Við höfum náð árangri varðandi fríverslunarsamninginn við Kína og nú erum við búin að hefja efnahagssamráð bæði við Bandaríkin og Japan. Í öllum þessum málum koma hagsmunaaðilar að og stendur ekki neitt annað til en að halda því áfram.