150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða fjárlagafrumvarpið og ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framlag hans í þeim málum. En mig langar að spyrja hann um báknið, báknið þenst út. Við sjáum gífurlega aukningu á tekjum ríkissjóðs og þetta er komið upp undir 1.000 milljarða. Ég sé að báknið þenst líka út í utanríkisþjónustunni, það eru 9,3 milljarðar 2018, svo eru komnir 11,2 og stefnir í 12,5 milljarða, og spyr hvort það séu ekki einhverjar hagræðingarkröfur þarna inni til að reyna að draga úr þessari útþenslu, sérstaklega í því ljósi að við erum með fjársvelt heilbrigðiskerfi og við þurfum að forgangsraða peningunum. Við erum búin að tala svolítið mikið um Brexit og hvort það sé ómögulegt að semja við Breta fyrr en þeir eru komnir út úr því ESB-fangelsi sem þeir eru í. Mig langar að spyrja hvort það sé möguleiki á því að eftir að þeir sleppa út fari að bresta á flótti úr ESB-samstarfinu og fleiri lönd gætu fylgt í kjölfarið, hvort það sé einhver vitneskja um það eða áætlanir. Það kæmi mér ekkert á óvart vegna þess að ég er alveg viss um að þegar Bretarnir fara út og hinir sjá hvað þeir hafa það gott þá koma fleiri á eftir.