150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:30]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Frú forseti. Hvað varðar fyrirspurn hv. þingmanns um urðunarskatt vil ég fyrst nefna að þessi leið hefur verið farin víða í nágrannaríkjum okkar og gefist ágætlega við að draga úr urðun. Þetta er almennt viðurkennd leið til að draga úr urðun. Við getum nefnt ríki eins og Danmörku, Svíþjóð, Noreg, Finnland, Bretland, Írland, Holland, Belgíu, Frakkland, Austurríki, Sviss, Spán og Ítalíu. Það væri kannski nær að ég myndi telja upp þau ríki sem ekki hafa gert þetta, ég væri fljótari að því.

Með öðrum orðum: Þetta er viðurkennd leið til að ná árangri við að draga úr urðun. Og hvers vegna er það mikilvægt? Jú, það er mikilvægt vegna þess að í úrgangsstjórnun viljum við síst urða. Það veldur mestri losun á gróðurhúsalofttegundum og þess vegna er mikilvægt að draga úr urðuninni. Þegar skattur er lagður á urðun gerist það að aðrar leiðir, hvort sem það er brennsla, endurvinnsla eða endurnýting, verða samkeppnishæfari. Það er verið að búa til hvata sem eiga að leiða til þess að við stöndum okkur betur akkúrat í þessu og urðum minna. Og gleymum því ekki að 7% af skuldbindingum Íslendinga, beinum skuldbindingum vegna Parísarsamkomulagsins, eru vegna úrgangsmála og langsamlega stærsti hlutinn af því er út af urðun. Hér er því um tímamótaaðgerð að ræða til að takast á við loftslagsmálin. Ég stend fastur á því að þetta er eitthvað sem við eigum að geta gert í mun meira mæli, þ.e. að taka upp græna skatta, því að það er líka verið að vinna að því að þau greiði sem mengi.

Ætternið getur hv. þingmaður algjörlega rekið til mín.