150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Það er mjög vel við hæfi að ræða ívilnanir á breiðum grunni eins og hv. þingmaður kemur inn á. Ég nefndi áðan ívilnanir vegna rafbíla. Ég vil líka nefna að við eigum von á frekari tillögum um áramótin eða fljótlega á nýju ári sem snúa að metani í vegasamgöngum og að vetni og ég tel að það verði mjög mikilvægt að fá inn til að geta nýtt þær leiðir líka til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þegar kemur að rafvæðingu hafna hafa þær úttektir sem gerðar hafa verið bent til þess að skynsamlegast sé að byrja á því að greiða veg orkuskipta þegar kemur að lágspennunni. Háspennan er gríðarlega dýr og þar held ég að við þurfum að setjast sérstaklega niður með sveitarfélögunum og sjá með hvaða hætti er hægt að takast á við það mál sérstaklega. En þar þarf líka að hafa í huga hversu miklu þær aðgerðir skili í samdrætti á útlosun miðað við að nota fjármagnið einhvers staðar annars staðar, af því að þetta er svo dýrt.

Ég vil nefna líka í þessu samhengi reglugerð sem ég birti í kynningu í samráðsgátt og fjallar um það að nánast banna svartolíu í landhelgi Íslands og við erum að vinna úr athugasemdum. Það mun ekki endilega draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en mun verða mjög mikilvægt til að takast á við sótmengunina sem kemur fyrst og fremst frá þeim skipum sem brenna svartolíu.

Og síðan vil ég benda hv. þingmanni á nýjar ívilnanir sem boðaðar eru í tekjubandormi.