150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:41]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Umhverfisvitund landsmanna hefur aukist stórlega á síðustu árum en áfram þarf með fræðslu og markvissum aðgerðum að draga enn frekar úr losun úrgangs og hvetja til nýsköpunar og notkunar á helstu tækninýjungum þegar kemur að endurvinnslu og flokkun sorps með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Mig langar kannski að taka aðeins lengra við hæstv. ráðherra umræðuna um metanvinnslu, að nýta hauggas. Á Akureyri hefur hauggasið verið nýtt í þó nokkuð mörg ár, dugar fyrir um 600 bíla og þrír strætisvagnar á Akureyri keyra á metani í dag. Það er verið að nýta þetta. Nú er verið að byggja í Álfsnesi, skilst mér, gasgerðarstöð sem getur knúið allt að 3.500 bíla.

Nú er efling hringrásarhagkerfisins eitt helsta markmiðið eða ein af helstu áherslum fyrir 2020. Hefur ráðherrann upplýsingar um það hversu stór hluti umferðar á Íslandi gæti nýtt sér metanið, bara fyrst við vorum að taka þann punkt? Mér datt þetta í hug vegna þess að mér finnst þetta mjög áhugavert og það er gaman að fylgjast með því hvernig þetta hefur gengið á Akureyri.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um náttúrustofurnar, við höfum tekið þær fyrir í fjárlaganefnd undanfarin ár og höfum bætt við hjá þeim rétt fyrir 3. umr. Mér sýnist að þetta sé allt að fara í réttan farveg með náttúrustofurnar, en ef hæstv. ráðherra gæti aðeins farið í gegnum það með okkur. Það er mikilvægt starf sem er unnið hjá þeim og ánægjulegt að það sé að fara í góðan farveg og væri áhugavert að heyra um það. Það skiptir víða miklu máli á landsbyggðinni að náttúrustofurnar séu í öruggum og góðum rekstri.