150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Frú forseti. Til að halda áfram með náttúrustofurnar þá eru, eins og ég segi, komnir samningar til 2023. Ég vil benda á það að í fjárlagafrumvarpinu þar sem sýnt er framlagið til náttúrustofanna, ef því er deilt niður á stofurnar erum við að tala um 19,1 milljón á ári á stofu en það eru í reynd 21,2 því það eru 16 milljónir sem dreifast jafnt á milli þeirra annars staðar í kerfinu hjá okkur. Sú stefna sem við höfum tekið í ráðuneytinu er að reyna að tryggja þennan grunnrekstrargrundvöll og síðan að ráðast í sérstaka samninga við náttúrustofurnar á grundvelli sérstakra verkefna og þá ekki síst varðandi vöktun. Ég vil nefna sem dæmi að við gengum núna frá samningi við náttúrustofuna í Stykkishólmi um vöktun og öflun vísindalegra gagna um mink í náttúru Íslands upp á 12 milljónir til tveggja ára. Það er búið að gera samninga við náttúrustofurnar á Húsavík og Bolungarvík til tveggja ára upp á 10 milljónir hjá hvorri og síðan er fjármagn, sem verið er að vinna áætlanir um, vegna vöktunar á náttúruverndarsvæðum og öðrum svæðum sem eru undir álagi vegna ferðamanna. Ég get ekki greint frá því nákvæmlega hvernig sú skipting verður en það er alla vega talsvert sem bætist við þar.

Aðeins varðandi skógrækt og landgræðslu og áherslurnar sem birtast í fjárlagafrumvarpinu. Framlög vegna endurheimtar og skógræktar aukast og er breytingin á milli ára tæpar 200 milljónir. Það mun síðan fara vaxandi á næstu árum líka. Ég held að ég verði að taka umræðuna um tegundir við hv. þingmann einhvern tímann seinna.