150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:50]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Árið 2020 er að koma og þá eru tíu ár þangað til við þurfum að hafa uppfyllt okkar hluta Parísarsamningsins. Til að ná því þarf samdrátt upp á rúmlega 100.000 tonn á ári, reyndar er það mjög vanmetið, næsta áratuginn. Ef Ísland nær því ekki er ljóst að ekkert land getur náð því, við stöndum mjög vel. Slíkt væri ekki bara alvarlegur ósigur í baráttunni gegn hamfarahlýnun sem mun hafa hrikalegar afleiðingar fyrir mannkynið í heild sinni heldur myndi það líka kalla yfir Ísland verulegan kostnað, bæði í formi skatta og gjalda en einnig í formi efnahagslegs skaða sem versnandi veðuraðstæður hafa í för með sér.

Það er ýmislegt jákvætt í þessum fjárlögum sem stendur til að gera, það eru ívilnanirnar, hvatar og reglugerðir o.fl. og það er allt hið besta mál. Hins vegar hefur komið mjög víða fram að eingöngu með stórfelldri aukningu á skógrækt og endurheimt votlendis munum við komast nærri því að ná markmiðinu. Það hefur verið talað um fjórföldun í það minnsta í skógræktinni til að komast í grennd við markmiðið. Þetta þykir mér bjartsýnt en ég er alveg gríðarlega þakklátur fyrir tilvist bjartsýnismanna. Hækkun framlaga til náttúruverndar, skógræktar og landgræðslu hljóðar hins vegar upp á 2,2% fyrir árið 2020 miðað við þetta ár, sem er jafnframt 1,7% samdráttur miðað við árið 2018. Þannig að spurning mín er einfaldlega: Er hæstv. ráðherra alvara?

Nú er talað um að umfang nýskógræktar, uppgræðslu og endurheimtar vistkerfa verði aukið. Er það tilfellið? Ég sé að hækkunin hljóðar upp á 113 millj. kr. en ekki 200 millj. kr. eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan. En þegar við horfum fram á ómældan skaða hljótum við að geta að spýtt aðeins í lófana. (Forseti hringir.) Það er klárlega útþensla í stjórnsýslunni en ég er ekki viss um að meiri bjúrókrasía muni hjálpa við að binda kolefni. (Forseti hringir.) Getur hæstv. ráðherra hjálpað mér aðeins við að fá smá von um að þetta verði allt í lagi, vegna þess að ekki veitir okkur af?