150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir innleggið, finnst heldur súrt í broti að hafa ekki verið alveg réttspár um hvað þingmaðurinn ætlaði spyrja um. Með því verður maður að lifa, óvissunni sem fylgir því að vera hér. Ef ég byrja á losunarheimildunum þá er það verkefni sem ég hef leyft mér í hálfkæringi að kalla peningarnir frá Brussel heim. Ráðgert var að á þessu ári myndi það berast sem hefði safnast upp og ég er ekki alveg klár á því hver staðan á því er. Ég geri ráð fyrir því að ástæðan fyrir lækkuninni á milli ára sé vegna gjaldþrots WOW air en ég þori ekki að fullyrða það. Þetta er ágiskun mín hér úr ræðustóli Alþingis, jafn óábyrgt og það kann að hljóma, en geri ráð fyrir að fjármálaráðherra þekki það betur.

Síðan kemur hv. þingmaður inn á ákveðið grundvallaratriði sem er ábatinn af því að ráðast í aðgerðir. Það er einmitt eitt af því sem við höfum verið að reyna að vinna núna frá gerð fyrstu aðgerðaáætlunar árið 2018, að reyna að setja betri verðmiða á hvað aðgerðirnar kosta og hverju þær skila. Eins og við hv. þingmaður höfum oft rætt er sumt af því mjög einfalt að gera meðan annað er flóknara. Ég nefndi áðan að við höfum sett í gang vinnu hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vegna kolefnisgjaldsins. Hún er farin að skila sér. Við höfum gert það sama varðandi F-gös, erum að skoða þetta með fleiri þætti og ég vonast til þess að með nýrri áætlun getum við svarað því enn þá betur. Kannski getum við ekki svarað öllu. En eitt vil ég segja síðan um ábatann, af því að hér var sérstaklega nefndur ábatinn af endurheimtinni, skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, (Forseti hringir.) að það eru í rauninni þættir sem við höfum hingað til ekki þekkt vel. En ég tek algjörlega undir að þar þarf að bæta upplýsingar og þekkingu.