150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:01]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir innleggið. Það er rétt sem hér var nefnt, búið er að ganga frá samningum við allar náttúrustofurnar til 2023 sem mér finnst vera mjög farsæll og góður áfangi. Sú upphæð sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu skiptist á milli þeirra, en að auki 16 milljónir, 2 á hverja.

Til að gera frekari grein fyrir því hvers konar samningar þetta eru við náttúrustofurnar þá eru þeir allir á sviði vöktunar. Að mínu mati eru náttúrustofurnar mjög vel til þess fallnar að sinna slíkum rannsóknum. Náttúrufræðistofnun Íslands gerir það líka og við erum núna að vinna með um 80–100 milljónir á ári, sem er nýtt fjármagn, til vöktunar náttúrusvæða og annarra svæða sem eru undir álagi vegna ferðamanna. Þetta er í rauninni það sem við sjáum fyrir okkur að skiptist með einhverjum hætti en ég er ekki enn þá komin með í hendur tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofanna að því hvernig það yrði gert. Það er kannski þetta sem ég horfi til á næstu árum að geti orðið svolítið grundvöllur til að efla starfsemi þeirra.

Hvað varðar þá samninga sem nú þegar eru fyrir hendi þá nefndi ég náttúrustofuna á Húsavík og í Bolungarvík, hvor tveggja um fugla, en samningurinn við náttúrustofuna í Stykkishólmi snýr að því að afla vísindalegra gagna um mink í náttúru Íslands, sem við þekkjum öll að er ágeng tegund og á að styðja við skipulag og framkvæmd aðgerða við eyðingu hans. Það er verið að reyna að byggja undir vísindalega nálgun með það hvernig hægt sé að stemma stigu við útbreiðslu og ágangi tegundarinnar.