150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:03]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir svörin og hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum því að þetta eru mjög mikilvæg verkefni sem náttúrustofurnar inna af hendi. Hæstv. ráðherra svarar kannski aðeins betur um vöktun um náttúruvá en mig langar til að fara austur og vestur líka. Samkvæmt ákvæði nýrra laga um skipulag haf- og strandsvæða skal hefja gerð strandsvæðisskipulags og bráðabirgðaákvæði laganna setur fram að slíkt skipulag skuli sett í framkvæmd á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þetta kallar á mikla samvinnu við sveitarstjórnir. Við vorum að tala um náttúrustofurnar og þetta gæti líka að einhverju leyti fallið undir verkefni þeirra. Þetta skipulag er sérstaklega mikilvægt þar sem þetta eru svæði þar sem fiskeldi er í uppbyggingu og því nauðsynlegt að hraða þeirri vinnu eins og hægt er. Því vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig framvindu þessa verkefnis er háttað og hvenær megi áætla að þeirri vinnu ljúki.