150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:13]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefndi áherslurnar varðandi fjármagn sem færi annars vegar í kolefnisbindingu og hins vegar í aðrar aðgerðir. Við höfum á yfirstandandi ári, þegar kemur að því að útfæra betur bæði það sem fer í innviðauppbyggingu, sem er stór þáttur, og það sem fer í kolefnisbindingu, verið að líta til þess að á seinni hluta fjármálaáætlunarinnar reynum við að toga svolítið betur af kolefnisbindingunni yfir í aðra þætti, og ég deili því með hv. þingmanni að það er skynsamlegra. Við munum því sjá það á seinni hluta áætlunarinnar að við erum að fara í það. Það breytir því ekki að verið er að spýta heilmikið í þegar kemur að landnotkuninni, sem er stórt atriði. Ég er nýkominn af aðildarríkjafundi eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna þar sem var gríðarlega mikil áhersla á það hvað landið og það að endurheimta land og sjálfbær nýting þess skiptir ofboðslega miklu máli þegar kemur að því að ná markmiðum margra af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Eitt er eyðimerkurmyndun, annað er líffræðilegur fjölbreytileiki, þriðja er hungur og fátækt, félagslegur stöðugleiki, friður og þar fram eftir götunum og svo náttúrlega loftslagið. Ég deili þessu algerlega með þingmanninum að þetta er mikilvægt atriði og legg ríka áherslu á það.

Þegar kemur að landbúnaðinum er alveg rétt að við þurfum að ræða það og taka það upp, þrátt fyrir að við séum með samninga til 2026, með hvaða móti við getum látið þetta samhæfast betur því að það er lykilatriði til að draga úr losun frá landi sem er illa farið. Við erum komin í gang núna, og nokkuð langt, með verkefni sem á að stuðla að því að bændur komi líka meira inn í verkefni í kolefnisbindingu og (Forseti hringir.) að það geti orðið hluti af því sem landbúnaðurinn (Forseti hringir.) hefur til málanna að leggja.

Svo ætla ég bara að segja varðandi úrgangsmálin að þau eru náttúrlega (Forseti hringir.) til fyrirmyndar á Akureyri eins og bent var á.