150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og er innilega sammála honum. Við getum öll tekið undir það að ef það verður settur skattur á úrgang og hann vigtaður er engin hætta hjá þeim sem eru verst settir, í flestum tilfellum er eiginlega enginn úrgangur frá þeim vegna þess að þeir hafa ekki efni á að kaupa eitt eða neitt, a.m.k. margir. Og ég tel að við verðum að spýta í lófana til að gera aðgengi almennilegt í þjóðgörðum okkar og annars staðar, á flestöllum stöðum sem fólk þarf að geta komist að og vill heimsækja.

Annað hefur leitað svolítið á huga minn undanfarið og ég er ekki sáttur við, en það var þegar ég sá myndband í fréttum, stutta fréttaskýringu, frá Álfsnesi. Þar var verið að brenna hauggasi, það var 600°C heitur brennari sem hitaði upp allt umhverfið. Ég varð eiginlega orðlaus, ég varð kjaftstopp þegar ég sá þetta, og ég hugsaði með mér: Hvað er í gangi? Ég held að það sé að verða nálægt því ár síðan ég sá þetta í fréttum. Ég spyr: Er þetta enn í dag? Er enn verið að brenna þetta gas? Og ef það er verið að brenna það, hvað er þá verið brenna miklum verðmætum? Og ég spyr líka: Er ekki verið að vinna í að reyna að nýta þetta? Það hlýtur að vera. En ég skil líka hitt sjónarmiðið sem ég er búinn að lesa mér til um, að það er miklu betra að brenna gasið heldur en að hleypa því út í andrúmsloftið, og það segir sig sjálft að þá eigum við auðvitað að brenna það frekar. En ég spyr bara: Getum við ekki reynt að finna eitthvert notagildi fyrir það þannig að það verði að verðmætum? Við ættum frekar, myndi ég segja, bara að gefa það til að bæta úr þessu.