150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:22]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég tek hjartanlega undir það með hv. þingmanni að þarna er í rauninni auðlind sem við erum ekki að nýta nægjanlega vel. Líkt og þingmaðurinn nefnir er betra að brenna það heldur en að það fari óbrunnið, skulum við segja, út í andrúmsloftið. Hins vegar er það eitt af verkefnunum að geta í auknum mæli nýtt þetta gas á bifreiðar. Við kynntum aðgerðir varðandi uppbyggingu innviða í tengslum við loftslagsmálin í vor þar sem við einbeitum okkur að því sem snýr að rafbílum og innviðum fyrir þá, en sögðum jafnframt frá því að vinnuhópur sem er á milli ráðuneyta er að vinna að því að móta tillögur um notkun metans og notkun vetnis. Ég er að vonast til þess að við getum séð öðru hvorum megin við áramótin einhverjar tillögur um það. Ég get nefnt sem dæmi að metanbíll á að geta drifið frá Reykjavík til Ísafjarðar en svo kemst hann ekki til baka nema hann hafi einhverja aðra eldsneytisgjafa til að koma sér hina leiðina. Það er ekkert sem ætti að mæla á móti því að við getum flutt metangas á metanstöðvar út um landið rétt eins og við getum gert með dísil og bensín. Þetta er eitt af því sem þessi hópur mun þurfa að skoða og verður vonandi til þess að við getum sett eitthvert fjármagn í að byggja þessa innviði upp líka svo við getum nýtt þá auðlind sem hv. þingmaður talaði um í sínu innleggi að væri að fara forgörðum.