150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:30]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að efla eigi stuðningsúrræði fyrir fólk með skerta starfsgetu og að komið verði á samstarfi um menntakerfið og endurhæfingaraðila um fjölgun tilboða um virkniúrræði fyrir fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu þannig að því fólki verði gert auðveldara að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði.

Einnig segir, með leyfi forseta:

„Komið verði á viðvarandi samstarfi Vinnumálastofnunar og menntakerfisins hvað varðar stuðning við atvinnuleit nemenda er stunda nám á starfsbrautum framhaldsskóla og nemenda er stunda starfstengt diplómanám við Háskóla Íslands.“

Nú sé ég í hendi mér að þessi málaflokkur skarast á milli ráðuneyta, félagsmálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis, en mig langar samt sem áður að heyra hvort félagsmálaráðherra muni ekki beita sér þannig að starfstengt diplómanám verði mögulegt við fleiri háskóla í landinu og að störf að loknu námi verði aðgengileg um allt land.

Ég vil líka inna hæstv. ráðherra eftir því hvort ekki eigi að koma til móts við þá lífeyrisþega sem þurfa að reiða sig á bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Til að setja þetta í samhengi þá eru grunnbætur þessara lífeyrisþega 247.000 kr. á mánuði en munu hækka um 8.645 kr. Þetta segi ég af því að hæstv. ráðherra ræddi aldraða áðan en mér finnst hann þurfa að koma inn á fleiri hópa.