150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:32]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar fyrirspurnir. Undirbúningsvinna er í gangi á milli menntamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, þegar kemur að einstaklingum með skerta starfsgetu og hvað tekur við að skólagöngu lokinni, um heildstæðar aðgerðir til að grípa þann hóp að loknu námi. Ég er kannski ekki í aðstöðu til þess að fjalla um menntamálin í þeim hluta en við eigum fulltrúa í þeirri vinnu og þessar vikurnar eru að formast, vil ég segja, fínar tillögur sem eiga að geta gripið þennan hóp. Við höfum talað um snemmtæk úrræði og úrræði fyrir ungt fólk sem er að koma inn á vinnumarkaðinn og það er mjög mikilvægt að byrja á þeim enda. Það ætlum við okkur svo sannarlega að gera. Ég vonast til þess að við náum að koma þeim tillögum í framkvæmd annaðhvort á þessu ári eða því næsta til að geta gripið þá einstaklinga og aðstoðað þá strax að loknu námi.

Varðandi hækkanir til örorkulífeyrisþega fór ég áðan yfir þær fjárhæðir sem við erum að setja þar inn á næsta ári. Þar er ákveðin hækkun. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig henni verður ráðstafað en við þurfum að hafa það hugfast að bæði málaflokkur aldraðra og örorkulífeyrisþega hækkar auðvitað vísitölutengt um hver áramót. Það hefur verið talað um að sérstakar hækkanir þurfi að koma til vegna launahækkana á þann lið en laun eru ekki vísitölutengd. Hækkanir koma á laun nú um áramótin vegna þess að samið er um það í kjarasamningum en það eru aukningar til málaflokksins á fjárlögum, eins og ég rakti í inngangsræðu minni.