150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:35]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Í fjárlagafrumvarpinu má lesa eftirfarandi, með leyfi forseta, og ég fagna því vissulega:

„Mótun fjármálaáætlunar og fjárlaga felur í sér ákvörðun um félagslega og efnahagslega forgangsröðun stjórnvalda. Vegna mismunandi stöðu kvenna og karla hefur tekjuöflun og ráðstöfun opinbers fjár ólík áhrif á kynin sem þarf að taka mið af við ákvarðanatöku.“

Nú er ljóst að samtvinna á kynjaða hagstjórn í öll málefnasvið ríkisins og að árlega verði unnið að jafnréttismati. Því langar mig að inna hæstv. félags- og barnamálaráðherra eftir því hvernig hann ætlar að standa við þetta, enda hafa ákvarðanir mismunandi áhrif á kynin, eins og sagt er og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, þar sem vinna á eftir kynjajafnréttissjónarmiðum við gerð fjármálaáætlunar og fjárlaga í anda leiðbeininga OECD.

Ég geri mér fulla grein fyrir að innleiðing þessarar hugsjónar tekur tíma og þess vegna er mikilvægt að vanda til verka svo að úr verði raunhæfur og marktækur árangur. Það er því gagnlegt að heyra hvernig hæstv. ráðherra ætlar sér að innleiða kynjaða hagstjórn og jafnréttismat í ráðuneyti sínu.