150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð hans á þessu málefnasviði félags- og barnamálaráðuneytis sem spannar mörg svið, allt frá málefnum barna og aldraðra, fjölskyldna, flóttafólks og atvinnulausra yfir í vinnumarkaðs- og húsnæðismál og allt þar á milli. Ég vil ræða við ráðherra um húsnæðismál en ráðherrann sagði að þau væru í miklum aðgerðum hvað þau varðar. Á leigumarkaði eru 50.000 manns, fjöldi fjölskyldna, ungt fólk, barnafjölskyldur og eldra fólk sem á ekki möguleika á að fjárfesta í íbúð enda fasteignaverð mjög hátt, leiguverð í hæstu hæðum og því ógerningur að leggja fyrir í fyrstu útborgun. Og hvernig bregst ríkisstjórnin við því? Jú, með því að gera ekki neitt. Það er ekkert að breytast. Framlagið til húsnæðismála er meira að segja að minnka að raungildi. Hvað erum við að tala um, herra forseti? Við erum að tala um að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem talar um stórsókn eftir stórsókn í húsnæðismálum, er að draga saman. Húsnæðisstuðningurinn í fjárlagafrumvarpinu skiptist í stofnframlög til almennra íbúða og húsnæðis- og vaxtabætur og ef við lítum á vaxtabæturnar er enga uppfærslu að finna hvað þær varðar og einnig fækkar þeim sem eiga rétt á að fá vaxtabætur. Það á með öðrum orðum ekkert að breytast til batnaðar, engin stórsókn heldur minnkar hlutur vaxtabóta að raungildi. Þar er enga uppfærslu að finna.

Hvað með þá sem þjarka á leigumarkaði? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að mæta þeim? Jú, með því að frysta bótafjárhæðir, þær hafa beinlínis rýrnað samhliða hækkandi leigu. Ég er ekkert að finna þetta upp hjá mér. Nei, hagfræðingur ASÍ hefur einmitt bent á það sama. Hún segir lítið eða ekkert sjást í fjárlagafrumvarpinu sem áður hafði verið lofað í húsnæðismálum, þ.e. sem varðar stuðning við ungt fólk og þá sem eru að fjárfesta í fyrstu eign. Það er ekki annað hægt en að spyrja hér í fyrstu ræðu út í þetta stórátak ríkisstjórnarinnar: Hvað er að gerast? Nú þegar tæp tvö ár er til kosninga, eigum við þá enn að velta því fyrir okkur hvernig eigi að framkvæma þetta einhvern tímann á þarnæsta kjörtímabili?