150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:40]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska hv. þingmanni til hamingju með formennsku í velferðarnefnd Alþingis. Ég hlakka til samstarfs við hana og nefndina á komandi þingvetri. Ég er ánægður með að taka umræðu um húsnæðismálin og þyrfti jafnvel lengri tíma til þess en tvær mínútur. Ríkisstjórnin er í mjög miklum aðgerðum í húsnæðismálum. Ég var síðast á fundi með Alþýðusambandi Íslands í dag ásamt forystumönnum ríkisstjórnarinnar þar sem lýst var mikilli ánægju með stöðu mála í lífskjarasamningunum og með þá þingmálaskrá og þær aðgerðir sem unnið er að, en við höfum líka lagt áherslu á að vinna málin í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Það er verið að taka á málefnum leigumarkaðarins með fjölgun almennra íbúða. Búið er að boða frumvarp á komandi þingi til að skerpa á húsaleigulögum til að bæta rétt leigjenda — allt er það unnið í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Við erum að undirbúa stuðning við fyrstu kaupendur með sérstökum eiginfjárlánum. Ef hv. þingmaður hefði hlustað á viðtal við þann sem hér stendur í framhaldi af viðtali við hagfræðinga ASÍ þá var þessu öllu svarað þar. Ekki er gert ráð fyrir því hér inni vegna þess að það eru sérstök eiginfjárlán þar sem ríkið lánar ungu fólki eða kemur inn í fasteignakaup með því. Það ratar ekki inn í fjárlög því að það teljast ekki bein útgjöld ríkissjóðs að styðja við ungt fólk með þeim hætti. Við höfum líka verið að ræða hvernig ríkið getur komið að því að fjármagna óhagnaðardrifin félög, m.a. verkalýðshreyfingarinnar. Það mun heldur ekki rata inn í fjárlög. Ég bind miklar vonir við að eiga gott samstarf við hv. þingmann enda eru fjölmörg mál — fjögur stór mál að ég held — sem fara inn í velferðarnefnd í vetur og lúta einmitt að þessu átaki í húsnæðismálum. Ég hlakka til að kynna þingmálaskrána fyrir nefndinni til að vinna með okkur að þessum málum en ekki taka út einstaka mola og tengja þá ekki saman við heildarmyndina. Við erum farin að sjá árangur af aðgerðunum vegna þess að því unga fólki sem er að festa kaup á sinni fyrstu fasteign er að fjölga. (Forseti hringir.) Við erum byrjuð að sjá árangurinn. Aðgerðirnar eru byrjaðar að virka og mjög stór frumvörp sem skipta miklu máli eru væntanleg á yfirstandandi þingi.