150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég ætla að fá að spyrja hann út í aðra hluti í seinni spurningu. Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin finni margar glufur til að láta aðra borga aðgerðir sínar og auðvitað er það fínt og gott að heyra að ýmislegt sé í kortunum sem ekki sjáist í fjárlögum af því að einhverjir aðrir sjá um það, það er bara gott mál. En mig langar að ræða við hæstv. ráðherra um þann hóp sem hann ætti, miðað við fögur fyrirheit forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, líka að vera að hugsa um. Um er að ræða aldraða, öryrkja og þá sem eru atvinnulausir. Aukning framlags vegna aldraðra er sem fyrr einungis vegna fjölgunar í þeim hópi. Aldraðir sem treysta á að fá nauðsynlega framfærslu í gegnum almannatryggingakerfið fá enga hækkun, ekki neina. Þarna á bara að hækka um 3,5% á sama tíma og laun á almennum vinnumarkaði munu hækka mun meira, eðlilega, í samræmi við hækkun á öllum nauðsynjum. En þegar kemur að þeim sem eru á lífeyri þá eru það allt í einu breiðu bökin að mati ríkisstjórnarinnar. Þar eru breiðu bökin og þar á að hækka um 3,5%. Það er umtalsvert minni hækkun en þeir sem eru á lægstu launum fá bara strax á næsta ári.

Þá spyr maður: Á hverju á þessi fjölbreytti og stóri hópur, sem lengi hefur ekki átt fyrir brýnustu nauðsynjum, að lifa? Hvar er réttlætið, hæstv. ráðherra? Þessi hópur lifir ekki á loftinu einu saman. Á sama tíma og hækka á lífeyrinn um 3,5% ákveður sama ríkisstjórn að hækka öll gjöld sem allir þurfa að greiða óháð efnahag um 2,5%. Hvar er réttlætið? Af hverju á þetta fólk alltaf að þurfa að bíða?