150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:53]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg. Ég held að við hv. þingmaður séum algjörlega sammála um málið. Í gær vorum við báðir staddir á mjög merkilegum fundi sem Hugarafl stóð fyrir. Fimm ungir einstaklingar, sem allir hafa annaðhvort glímt við sjálfsvígshugsanir eða reynt að fremja sjálfsvíg, töluðu um reynslu sína og fóru yfir það hvernig kerfið hefði hjálpað þeim, hvað hefði þurft að vera öðruvísi og lýstu því öll hvernig hefði verið hægt að grípa inn miklu fyrr og forða þeim langa aðdraganda sem varð að þessum hugleiðingum eða tilraunum þessa fólks.

Hv. þingmaður hefur verið að vinna í samstarfi við félagsmálaráðuneytið, í gegnum þverpólitíska þingmannanefnd og í samstarfi við önnur ráðuneyti líka, að því að forma breytingar á velferðarkerfinu, gera skýrari skil á milli 1., 2. og 3. stigs þjónustu, fjölga úrræðum í 1. stigs þjónustu þar sem hægt er að grípa þessa einstaklinga, ekki endilega með úrræðum í heilbrigðiskerfinu heldur jafnvel með úrræðum í menntakerfinu eða félagsþjónustunni, á vegum sveitarfélagsins, eða einstaka úrræðum á vegum frjálsra félagasamtaka. Það er brýnt að búa til net til að grípa þessa einstaklinga.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni og ég er sannfærður um að ef við náum að gera breytingar sem gera það að verkum að við náum samstöðu um þetta, bæði í pólitíkinni og í kerfinu, getum við til lengri tíma litið sparað óheyrilega fjármuni innan kerfisins sem og bjargað lífum og bætt líf mjög margra einstaklinga. Þetta tekur allt tíma og mikilvægt er að huga að því að hafa sem flesta með í þessu verkefni.