150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.“

Síðan kemur síðari setningin í málsgreininni, með leyfi forseta:

„Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins.“

Ég er sammála þessu, það þarf sérstaklega að huga að henni. Nú er kjörtímabilið hálfnað og það er hálft ár síðan Velferðarvaktin birti skýrslu sína um lífskjör og fátækt barna á Íslandi frá 2004–2016. Ég er að hugsa hvernig þessar upplýsingar, þessi staðreynd, og það að ráðherra hefur sett barnamál á oddinn, alla vega sett þau í titilinn — mig langar að sjá hvort hann hafi sett þetta mál á oddinn því að hann hefur heimild í stjórnarsáttmálanum. Hann hefur stað til að benda á og segja: Hérna stendur að sérstaklega þurfi að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins. Barnamálaráðherra hefur styrka stoð í stjórnarsáttmálanum til að segja: Við þurfum að tryggja að börn sem búa við fátækt fái það sem þau þurfa til að hífa þau upp úr fátækt. Hvernig hefur hæstv. ráðherra unnið að þessum málum?