150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:02]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég rakti áðan erum við í fjölþættum aðgerðum þegar kemur að þessum málum, það eru skattkerfisbreytingar, breytingar á barnabótakerfi, aðgerðir í húsnæðismálum. Allt miðar þetta að þessum hópi, að grípa þar inn í. Hins vegar er það vandamál að þrátt fyrir að við vitum það sem hv. þingmaður segir, til hvers fátækt barna getur leitt — og við viljum það ekki, við vitum hvaða afleiðingar það getur haft síðar meir á þessa einstaklinga — þá er til allt of lítil tölfræði um það hvernig því er háttað. Ríkisstjórnin ákvað t.d. í samstarfi við UNICEF að fjármagna það að fá skýrslu með reglubundnum hætti um stöðu barna sem búa við fátækt á Íslandi. Ef okkur vantar þessa tölfræði vitum við ekki heldur hvort aðgerðir okkar skili raunverulega árangri. Við getum talað út í hið óendanlega en á meðan við erum ekki með þessi tæki og tól til að mæla það þá vitum við ekki hvort aðgerðirnar skila árangri. Við erum að reyna að ráðast í aðgerðir til að ná utan um þennan hóp. En á sama tíma erum við að gera róttækar breytingar sem miða að því að grípa þessi börn fyrr.

Eitt af þeim verkefnum sem við settum af stað í því skyni er verkefni í samstarfi við Kópavog, UNICEF og fyrirtækið Kara Connect um að búa til sérstakt mælaborð þegar kemur að velferð barna, mælaborð sem mælir stöðu barna í viðkomandi sveitarfélagi. Við förum að sjá fyrstu útlínur þessa verkefnis núna á haustdögum og það var kynnt þannig að ætlunin með því væri að hægt yrði að heimfæra það á önnur sveitarfélög þannig að bæði sé hægt að bera saman stöðu barna milli sveitarfélaga og prófa aðgerðir sem við erum að setja inn, því að bæði sveitarfélög og ríki eru með alls konar aðgerðir. Við erum alla daga að ræða aðgerðir en við höfum engin mælikerfi til að prófa hvort þær virka. Þetta verður ekki byggt upp á einni nóttu en þetta er grundvallaratriði vegna þess að á meðan við vitum ekki hvað virkar, þá vitum við ekki hvað við eigum að gera.